Saga

Átak, félag fólks með þroskahömlun,  var stofnað 20. september árið 1993. 

 

“Við stofnuðum þetta félag sjálf til að ráða okkar eigin lífi í framtíðinni. Það eru sumir sem fá ekki að ráða sínu eigin lífi. Oft er það þannig hjá þeim sem eiga eldri systkini að þau vilja ráða yfir okkur og okkar lífi og það er það sem við viljum ekki. Við viljum fá að sjá það sjálf hvað við getum í framtíðinni.”

Var það sem Ína Valsdóttir, fyrsti formaður Átaks hafði að segja í Tímariti Þroskahjálpar 1993 eftir stofnun félagsins. 

 Fyrsta stjórn Átaks

   Fyrsta stjórn Átaks. Frá vinstri: Gunnar Gunnbjörnsson, María Hreiðarsdóttir, Birgir Björnsson, Ína Valsdóttir og Ólafur Ólafsson. 

 

Á fyrstu árum Átaks tók félagið við umsjón yfir umræðuhópum Þroskahjálpar og breyttust þá í umræðuhópa Átaks. Markmið umræðuhópanna var að efla fólk með þroskahömlun til að  hafa áhrif á eigið líf.

 

Hver hópur starfaði þá sjálfstætt undir leiðsögn tveggja leiðbeinanda og hittist vikulega. Átak hefur frá upphafi haldið mánaðarlega félagsfundi þar sem annaðhvort hefur verið tekin fyrir ákveðin málefni eða boðið upp á einhvers konar fræðslu. 

Einu sinni á ári heldur félagið aðalfund en samkvæmt lögum Átaks skal hann vera í apríl eða maí hvert ár.  Á aðalfundi er kosið til stjórnar. 

 

Átak er hugsað til valdeflingar. Til að efla sjálfsákvörðunarréttinn.

 

Hlutverk Átaks er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, að berjast fyrir réttindum fólks með þroskahömlun og vekja athygli á málefnum sem tengjast fólki með þroskahömlun.


Öllum er velkomið að vera félagsmaður Átaks en einungis fólk með þroskahömlun getur setið í stjórn félagsins. 

 

Sagan á bak við hvernig hugmyndin um sjálfsákvörðunarrétt þróaðist og hvernig hún barst til Íslands er grunnurinn að sögu og stofnun Átaks. 

Fyrsta opinbera umræðan um sjálfsákvörðunarrétt fólks með þroskahömlun og hugmyndafræði ‘’self-advocacy” eða eigin talsmanna er talin hafa komið fram árið 1985 á Landsþingi Þroskahjálpar þegar flutt voru erindi um áhrif þroskahamlaðra á eigið líf. Fyrirlesarar voru Dóra Bjarnason lektor við K.H.Í og móðir drengs með þroskahömlun ásamt Halldóru Sigurgeirsdóttur ritstjóra Tímaritsins Þroskahjálpar. Þær höfðu kynnst hugmyndafræðinni bæði í bandaríkjunum og í gegnum norrænt samstarf.  Í framhaldi af umræðunni á þinginu urðu til umræðuhópar Þroskahjálpar veturinn 1985 - 1986. Tilgangur umræðuhópanna var sá að einstaklingarnir í hópunum myndu kynnast innbyrðis, þeir myndu öðlast aukan vitund um sterkar og veikar hliðar sínar, þau myndu þjálfast í að tjá sig og hlusta og aðra og svo að lokum að þau myndu þjálfast í að taka virkan þátt í að móta eigið líf. 

 

Vorið 1986 voru sendir tveir fulltrúar með þroskahömlun frá Íslandi á norrænan fund þar sem sjálfsákvörðunarréttur var í brennidepli. Það var síðan um haustið sama ár sem að haldið var fyrsta málþing fólks með þroskahömlun á Íslandi. Á þinginu voru 14 fulltrúar og 5 aðstoðarmenn. Umræðuefni þingsins var ‘’Frístundir þroskaheftra og möguleikar þeirra til að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða eigið líf” 

 

Á vorþingi umræðuhópa Þroskahjálpar árið 1993 sem var haldið á Hótel Örk í Hveragerði í júnímánuði var það svo til umræðu að stofna félag utan um umræðuhópana. Ákveðinn hópur einstaklinga hafði unnið undirbúningsvinnu fyrir þennan fund. Á þessum fundi var sammælt um það að stofna skyldi félag. Í september sama ár var síðan Átak, félag fólks með þroskahömlun (sem hét þá Átak, félag þroskaheftra) stofnað. 

 

Árið 1998 yfirtók Átak alveg rekstur umræðuhópanna með samningi við Landssamtökin Þroskahjálp. 

 

 Stofnfundur Átaks

 

 

Heimildir og myndir: 
Tímarit Þroskahjálpar. 1993. 4. tbl. bls. 5.
Friðrik Sigurðsson. 2002. “Þróunaráætlun fyrir umræðuhópa fólks með þroskahömlun” bls. 4 - 6.