Ég og stjórnmálin

Ína Owen Valsdóttir
Ína Owen Valsdóttir

Grein eftir Ínu Owen Valsdóttur Sendiherra Samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Þátttaka í stjórnmálum og opin-beru lífi:

Ég hef haft áhuga á stjórnmálum í mörg ár eða síðan að ég var formaður hjá Átaki félag fólks með þroskahömlun. Ég hef áhuga á að berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks.

 

Í 29. grein í samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um þátttöku í stjórn-málum og opin-beru lífi. Fólk með þroskahömlun hefur hingað til ekki tekið mikið þátt í stjórnmálum og mér að vitandi hefur manneskja með þroskahömlun aldrei setið á þingi. Við þurfum því að berjast fyrir því. Við þurfum að geta haft áhrif á málefni fatlaðs fólks á þingi.

 

Fatlað fólk og eldri borgarar fá of oft að finna fyrir niðurskurði og því þarf að breyta. Það þarf að hafa í huga að við erum líka manneskjur, við erum ekki annars flokks kjötvara sem hangir upp á vegg. Það þarf því að laga margt.

 

Svo má huga að því að hlusta á það sem við höfum að segja um okkar líf. Það væri áhugavert ef manneskja með þroskahömlun fengi tækifæri til að fara í starfsþjálfun á Alþingi. Og talandi um Alþingishúsið þá þarf að laga margt þar.

 

Fólk sem notar hjólastól á til dæmis erfitt með að komast þar um. Ég fór í heimsókn með Sendiherrunum í alþingishúsið í Berlín. Þar var aðgengið mjög gott. Þar var ræðupúltið til dæmis þannig að allir geta notað það líka fólk sem notar hjólastól. Þar voru líka brautir og lyftur. Alþingi Íslendinga mætti taka sér þetta til fyrirmyndar.

 

Í 29. Grein Samningsins kemur fram að allar upplýsingar í sambandi við kosningar eigi að vera á auðskyldu máli. Kjörseðlar og Kosningablöð þurfa til dæmis að vera þannig að allir skilji þau. Það er því mikilvægt að nota ekki erfið orð, Það tók mig til dæmis mjög langan tíma að skilja hvað orðið hvívetna þýðir.

 

Við sem erum með þroskahömlun eigum að fá upplýsingar á auðlesnu máli. Stjórnmálamenn mega líka hafa það hugfast að tala skýrara mál en þeir oft gera. Stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn mega því fara að bæta sig í að koma frá sér efni, bæði í rituðu og töluðu máli þannig að allir skilji.

 

Fólk sem þarf aðstoð til að kjósa á að fá að velja sér aðstoðarmann til að fara með inn á kjörklefana. Það á ekki að vera í boði að þurfa að fá aðstoð frá starfsmanni á kjörstað sem ekki einu sinni þekkir manneskjuna sem verið er að aðstoða.

 

Það er framfaraskref að nú sé loksins búið að lögleiða Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nú hvet ég Alþingi til góðra verka í aðdraganda kosninga og minni sérstaklega á 29. greinina og mikilvægi þess að fara eftir henni.

 

Ína Owen Valsdóttir