Hefur fatlað fólk minni réttindi en ófatlað fólk?

María Hreiðarsdóttir
María Hreiðarsdóttir

Þessi blaðagrein fjallar um 19. og 23. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en þær fjalla um sjálfstætt líf og fjölskyldulíf. Mitt starf hefur verið að kynna samninginn fyrir almenningi síðastliðin 4 ár og hef ég í starfi mínu haft þessar greinar samningsins að leiðarljósi.

 

Í 19. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir að fatlað fólk eigi sama rétt og aðrir til að velja og hafna. Einnig er fjallað um að fatlað fólk eigi rétt á velja sjálft hvar það býr, hvernig og með hverjum.

 

En oft er langt á milli þess að eiga rétt og svo hvort fatlað fólk hefur mögleika á að velja og hafna. Það hafa til dæmis ekki allir val um hvar og hvernig það vill búa og hvert það langar að fara í sumarfrí. Hvers vegna er það þannig?

 

Yfirvöld bera mikla ábyrgð og margir telja að félagslega kerfið sé á niðurleið. Út frá því spyr ég: Geta yfirvöld sveitarfélaga ákveðið félagslega þjónustu fyrir þennan hóp en síðan næsta dag sagt að hún sé ekki í boði sökum fjárskorts? Í framhaldi af því má líka spyrja hvort sveitarfélögin þurfi ekki að fara eftir ákveðum lögum og mannréttindasamningum þegar kemur að þjónustu við fatlað fólk? Stundum virðist þetta ekki skipta máli og það er oft eins og þjónustan sé háð því hvað mikið fjármagn er til í buddunni. Það hlýtur að vera mannréttindabrot.

 

Ég spyr líka hvort ófatlað fólk hafi meiri réttindi en fatlað fólk? Ég spyr líka hvaða fólk þurfi á mestri þjónustu að halda ? Ef það er fatlað fólk er þá eðlilegt að skera niður þar sem þörfin er mest?

 

23.grein Samnings Sameinuðu þjóðanna fjallar um virðingu fyrir heimils- og fjölskyldulífi. Þar segir að fatlað fólk eigi sama rétt og aðrir til að halda frjósemi sinni, giftast, stofna fjölskyldu og eiga börn. Einnig á fatlað fólk rétt á að fá fræðslu og stuðning um fjölskyldumál og barnauppeldi. Það má velta fyrir sér hvort þetta sé svona í rauninni? Eru sveitarfélöin almennt að veita foreldrum með þroskahömlun viðunnandi stuðning til að börnum þeirra farnist sem best í lífi og starfi?

 

Við sem samfélag ættum að geta gert mun betur þegar kemur að hópi seinfæra foreldra. Þetta ekki stór hópur en samkvæmt erlendum rannsóknum er um 1% foreldra seinfærir. Þetta er viðkvæmur hópur og að mínu mati þarf mörgu að breyta og ekki síst þarf aukið fjármagn til þessara fjölskyldna. Þá vantar sérstakan faglegan ráðgjafa sem sérhæfir sig í vinnu með seinfærum foreldrum. Slíkur ráðgjafi þarf alltaf að vinna í miklu samráði við foreldrana. Margar fjölskyldur þurfa meiri stuðning en þær fá í dag. Ábyrgð samfélagsins er mikil þegar kemur að þessum foreldrum og yfirvöldum ber skylda samkvæmt lögum og mannréttindasáttmálum að veita fólki sem er í félagslega erfiðri stöðu stuðning.

 

Ég á þrettán ára gamlan son og mér hefur ekki verið boðið á sérstakt námskeið með öðrum foreldrum á vegum þjónustumiðstöðvar minnar. Sú þjónusta sem hefur verið í boði miðar að því að þjónusta fólk á heimilum þeirra. Sú þjónusta hentar ekki öllum og það hefur vantað stuðning sem miðar að þörfum fjölskyldunnar á hverjum tíma. Það skiptir máli að stuðningurinn sé eins og fjölskyldan vill hafa hann og að hann nýtist sem best.

 

Ég vil benda á að oft er mikill misbrestur hvað þetta varðar og ég tel það vera skyldu mína bæði sem móðir og sendiherra að skrifa þessa grein. Ég vona að það verði

 

viðhorfsbreyting til málefna fatlaðs fólks í samfélaginu. Ég vona líka að allir verði meðvitaðri um þá samfélagslegu skyldu að virða rétt allra fjölskyldna í landinu. Allt fólk á að eiga jafnan rétt til frelsis og virðingar. Þá ber að virða lagalegan rétt og þá mannréttindasáttmála sem hafa verið undirritaðir fyrir Íslands hönd.

 

María Hreiðarsdóttir, Sendiherra Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks