Við erum ekki börn

Aileen S. Svensdóttir, formaður Átaks
Aileen S. Svensdóttir, formaður Átaks

Í kjölfar umfjöllunar í fréttatíma RÚV miðvikudaginn 2. mars síðastliðinn varð ég verulega döpur. Þar var verið að að tala um mig sem barn, ég sem er orðin næstum fertug.

 

Ég hélt við værum komin yfir þetta viðhorf fyrir löngu og værum farin að virða fólkið eftir aldri óháð fötlun.

 

Í umræddri frétt sem rætt var um það hvernig sé best að yfirheyra fólk með þroskahömlun var ítrekað vísað til barna og þá sérstaklega var lögð áhersla á að fá leyfi til að yfirheyra okkur í Barnahúsi.

 

Sá ágæti lögreglufullrúi, sem á dögunum fékk Múrbrjót Landssamtakana Þroskahjálpar og fréttamaður RÚV töluðu um okkur, fullorðna fólkið, sem börn sem ættu eftir 18 ára aldur að láta taka skýrslu af okkur í Barnahúsi. Afhverju?

 

Áður fyrr var fólk kallað fávitar af því það var með þroskahömlun, svo vangefnir og að lokum þroskaheft. Í kringum 1995 var ákveðið í ljósi baráttu sem hafði byrjað í Bandaríkunum 1988 og kölluð fólkið fyrst (people-first) og notast við orðfærið „fólk með þroskahömlun“.

 

Þetta er ekki flókið við erum öll fólk, persónur og leikendur í þessu samfélagi. Fullorðið fólk fer ekki á leikskóla því það hagar sér eins og börn.

 

Ég skil ég ekki af hverju þarf að yfirheyra fullorðið fólk í Barnahúsi?

 

Við þurfum stuðning og hefur umræddur lögreglufullrúi eimitt sett fram verkferla sem við hjá Átaki, félagi fólks með þroskahömlun erum ánægð með sem eflir okkur sem fullorðið fólk.

 

Hann hefur bætt aðstöðumun okkar og gefið okkur rödd.

 

Í því kerfi er einmitt lögð áhersla á stuðning við okkur en ekki af því að við erum börn, heldur af því við erum fullorðið fólk, með þroskahömlun sem í sumum tilfellum þurfum stuðning.

 

Í 13. grein samnings Sameinuðuþjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er ákvæði  um að aðildaríkin sem skrifuðu undir þann samnings eigi að tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð að þörfum þess.

 

Segir í þessari grein sérstaklega ...og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi,...“ .

 

Ég bið ekki um meira en að fjölmiðlar, lögreglan og allur almenningur notist við það orðfæri og aðgerðir sem bera virðingu fyrir lífaldri fólks.

 

Við sem erum með þroskahömlun erum ekki börn, við erum fullorðið fólk sem viljum njóta sömu réttinda og virðingar og annað fullorðið fólk í samfélaginu þó við þurfum sérstaka aðstoð.

 

Sýnið því smá virðingu og virðið okkur sem fullorðið fólk.

 

Aileen Soffia Svensdóttir, formaður Átaks félags fólks með þroskahömlun