Fræðslu- og handavinnukvöld Átaks

Þann 15. júní síðastliðinn var haldið fræðslu- og handavinnukvöld Átaks.

Ragnar Smárason verkefnastjóri og Kristín Björnsdóttir prófessor við Háskóla Íslands kynntu niðurstöður rannsóknar sinnar um fatlað fólk og Covid-19 heimsfaraldurinn.

Kynningin var afar áhugaverð og lifandi umræður sköpuðust.

Við ræddum meðal annars um það af hverju fatlað fólk var í meiri hættu á því að fá covid en þar nefndu þau nokkur atriði. Til dæmis snertingu þar sem sumir þurfa að styðja sig við snertifleti, aðgengi að upplýsingum og undirliggjandi sjúkdóma. Það er hægt að minnka þessa áhættu ef yfirvöld gera viðeigandi ráðstafanir.

Ragnar gerði sérstaka úttekt á covid.is vefsíðunni en ýmislegt hefði betur mátt fara til að gera hana aðgengilegri fyrir alla. Erfitt var að skilja upplýsingarnar á henni og það vantaði stillingar til að aðstoða við lesturinn, til dæmis var ekki hægt að stilla leturgerð né breyta litnum á bakgrunninum.

Einmanaleiki í faraldrinum var einnig ræddur og fólk deildi sinni reynslu.

 

Við þökkum Kristínu og Ragnari kærlega fyrir komuna og störf sín í þágu fatlaðs fólks.