Húsnæðismál fatlaðs fólks

Þorvarður Karl Þorvarðarson
Þorvarður Karl Þorvarðarson
Ég bý í þjónustukjarna og kann vel við það, þar er ég með mína eigin stúdíóíbúð og fæ aðstoð við það sem ég þarf. Ég bjó á herbergasambýli í næstum tuttugu ár. Þar vorum við íbúarnir með nefið í hvers manns koppi.
 
Enginn átti sitt einkalíf.  Ég efast um að ráðamenn þjóðarinnar myndu láta bjóða sér upp á að búa á herbergjasambýli. Ég skora hér með á ykkur að prófa það.
 
Það tók okkur íbúana á þjónustukjarnanum næstum 20 ár að komast þangað eftir miklar og langdregnar umræður. Mér finnst að öll sambýli eigi að vera gerð að þjónustukjörnum svo hver og einn einstaklingur fái sitt einkalíf og þá aðstoð sem hann þarf.
 
Það er líka mikilvægt að geta boðið fólki heim og í mat í ró og næði. 22. grein Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fjallar um einkalíf. Þar segir að fatlað fólk eigi rétt á að einkalíf þess sé ekki truflað á nokkurn hátt.
 
Við eigum nefnilega líka rétt á einkalífi heima hjá okkur eins og ráðamenn þjóðarinnar. Mér finnst líka að öll sambýli eigi að hafa sinn eigin bíl til umráða og þá bíl sem hentar öllu heimilisfólkinu. Það er alveg hægt ef viljinn er fyrir hendi. Við á mínum þjónustukjarna erum með okkar eigin bíl til umráða á móti öðru heimili.
 
Það er mikill munur fyrir okkur að vera ekki háðir starfsfólkinu , strætó eða með fullri virðingu Ferðaþjónustu fatlaðra. Við getum farið með engum  fyrirvara á rúntinn ef við viljum hvert sem er til dæmis upp á Skaga eða bara hvert sem er.
 
Virðingarfyllst,
 
Þorvarður Karl Þorvarðarson
Sendiherra Samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks