Loksins orðin sjálfstæð

Í bæ á Norðurlandi býður stolt kona á miðjum aldri blaðamanni í heimsókn í íbúð sína. Íbúðin er hennar eigin. Af því er hún stolt en ýmsu öðru líka er varðar baráttu hennar fyrir meira sjálfstæði og réttindum. 

 

Í bæ á Norðurlandi býður stolt kona á miðjum aldri blaðamanni í heimsókn í íbúð sína. Íbúðin er hennar eigin. Af því er hún stolt en ýmsu öðru líka er varðar baráttu hennar fyrir meira sjálfstæði og réttindum. 

 

Hún er um fimmtugt og bjó á Sólheimum í tíu ár áður en hún fékk aðstoð til þess að flytja burt. Hún vill ekki koma fram undir nafni. Við köllum hana Hönnu til að auðvelda frásögnina. 

 

Íbúð Hönnu er skreytt medalíum og hennar eigin hannyrðum, nokkrar haganlega innrammaðar púslmyndir eru uppi á veggjum og ljósmyndir úr sveit úr æsku.

 

Hanna hefur áður fengið heimsókn frá starfsmanni Átaks, sem safnar sögum fatlaðs fólks, þar á meðal íbúa á Sólheimum, um reynslu þeirra. Í því kom fram að hún deilir á óljósar upplýsingar um greiðslur íbúa til Sólheima og bág kjör miðað við langan vinnutíma.

 

Hjá Átaki er lögð áhersla á að fólk með þroskahömlun tali sjálft fyrir hagsmunum og réttindum sínum.


Hanna er fædd og uppalin í sveit.

Fyrstu uppvaxtarárin bjó hún við vondan aðbúnað. Afskipti barnaverndar voru tíð vegna ofbeldis. 

 

Fjórtán ára gömul fór hún í fóstur. Hanna segist þá hafa búið við ágætan kost.

 

Fósturfjölskyldan flutti sig um set landshluta á milli í bæinn sem Hanna býr í núna. Þótt Hanna hafi þá verið komin á fullorðinsaldur lítur hún á bæinn sem stað þar sem hún er örugg og hafi fest rætur.

 

„Hér eru rætur mínar og mér finnst gott að vera komin aftur hingað. Hér kynntist ég góðu fólki sem hjálpaði mér,“ segir Hanna og á allra helst við konu í nærsveit sem hefur veitt henni góðan stuðning.

 

„Ég fékk fyrst vinnu í kaupfélaginu og mér líkaði það mjög vel. Upp á síðkastið hef ég verið að vinna í leikskóla. Ég er í boccia. Mér finnst gaman að prjóna og hitta annað fólk. Ég á mína eigin íbúð, á allt í íbúðinni og geri flest allt sjálf. En fæ aðstoð við það sem ég þarf, það er nú ekki mikið,“ segir Hanna sem fær aðstoð við þrif og að læra að lesa sem hún hefur ekki náð tökum á.

 

Líkaði vistin vel

Þegar Hanna vildi prófa sjálfstæða búsetu var ákveðið að hún færi á Sólheima. Hanna sagðist sjálf hafa verið nokkuð spennt fyrir því að fara og hafði heyrt að Sólheimar væru fallegur staður þar sem gaman væri að vera.

 

Og það var raunin fyrstu árin. Hönnu líkaði vistin vel. „Ég kom á Sólheima á föstudegi og fór að vinna á mánudegi á vinnustofu við að flokka tómata, gúrkur og paprikur, mér fannst fínt að vinna þar.“

 

Síðustu fjögur ár vistarinnar á Sólheimum fannst Hönnu þjónusta við íbúa skert og hún fór að finna til vaxandi óánægju.

 

„Seinustu fjögur árin fannst mér þetta hafa hrunið. Þá var hætt að vera þjónusta við okkur. Hætt að fara með okkur í Bónus einu sinni í viku sem tíðkaðist áður fyrr, hætt að fara með okkur í bíó, út að borða og ýmislegt fleira.“

 

Veistu eitthvað af hverju þessum ferðum var hætt? „Mér var sagt að það hefði verið af því að ríkið hætti að styrkja Sólheima.“

 

Ósátt við óljósa innheimtu

Hanna bjó fyrst um sinn ein í íbúð en síðustu árin bjó hún með maka sínum. Hún er fráskilin í dag.

 

Hún segist finna fyrir viðhorfi fólks að íbúar á Sólheimum eigi að vera þakklátir fyrir aðbúnað sinn og ekki að tala um réttindi sín.

 

Hún segir marga hafa reynt að hjálpa til við að auka réttindi íbúa á Sólheimum. „Þeir sem reyna að aðstoða okkur, fræða okkur um mannréttindi okkar, þeir eru sko ekki í náðinni hjá stjórnendum,“ segir Hanna.

„Þegar maður fór í kaupstað þurftum við að borga þeim sem var að keyra okkur sérstaklega úr eigin vasa. Við fengum aldrei að vita hvað okkar peningar fóru í á Sólheimum. Við vorum látin borga og borga. Til dæmis þegar við bjuggum saman, ég og maki minn, og þó svo að við höfum búið saman þurftum við að borga jafn mikið fyrir Stöð 2 og netið. Við borguðum jafn mikið og þegar við bjuggum ein.

 

Við fengum aldrei launaseðla eða að fá að vita hvað við fengum útborgað. Útprentaðir seðlar voru eitthvað annað, eins konar uppgjör. Við reyndum oft að spyrja út í þetta en fengum ekki skýr svör,“ segir hún.

 

Hanna nær í möppur með gögnum sínum frá Sólheimum og sýnir hvernig upplýsingum til íbúa er háttað. Á nokkurs konar uppgjörsseðlum kemur fram að af örorkubótum er dregin húsaleiga og rekstrarkostnaður. Það er þessi tiltekni ósundur¬liðaði rekstrarkostnaður sem Hanna deilir á og finnst óréttlátur.

 

„Ég reyndi að fá réttindagæslumenn til að fá yfirlit yfir pappírana, eða það sem peningarnir fóru í. Fá þetta sundurliðað og útskýrt. En þeim tókst það ekki heldur.“

 

Hvernig gekk dagurinn fyrir sig á Sólheimum?

„Það var alltaf morgunfundur klukkan níu. Eftir það tók vinnan við til fimm. Ég fékk mjög lág laun miðað við það sem ég fæ í dag þó svo ég vinni mun styttri vinnudag,“ segir Hanna en á uppgjörsseðlunum eru launin frá um tíu þúsund til þrjátíu þúsund krónur. „Eftir vinnudaginn var hver í sínu horni. Mér leiddist þetta. Þarna var ég búin að ákveða að komast hingað. Ég var alltaf að hugsa hingað og láta mig dreyma um að búa hér og vinna.“

 

Margt gott á Sólheimum

Hún vill taka það fram að sumt starfsfólk á Sólheimum leggi sig virkilega fram um að gera líf íbúa betra. „Það er svo margt gott á Sólheimum sem ætti að fá að vera áfram fallegt,“ segir Hanna og tiltekur sérstaklega starf í leiklist og ýmsum listgreinum. „Svo eru margir þarna sem eiga engan annan samastað. Þess vegna finnst mér að það verði að breyta framkomu við íbúa.“

 

Það urðu ákveðin kaflaskil í lífi Hönnu þegar hún fékk að fara á sjálfsstyrkingarnámskeið á Selfossi til Guðrúnar Lindu Björgvinsdóttur.

 

Á námskeiðinu var til að mynda farið yfir réttindi fatlaðs fólks. Guðrún Linda segist hafa bent þeim sem sóttu námskeiðið á leiðir til að tjá sig og frætt þau um skyldur Sólheima gagnvart þeim.

 

„Ég var beðin um að kenna þetta námskeið vegna þess að þau vissu lítið um réttindi sín. Ég kynnti þeim ákvæði mannréttindasáttmálans og benti þeim á ýmsar leiðir til að tjá sig um óánægju sína,“ segir Guðrún Linda sem segir íbúa hafa rætt töluvert um greiðslur, laun, mötuneyti, aðgengi og annað. „Ég benti þeim líka á leiðina að því að sækja um búsetu annars staðar,“ segir hún og bendir á að vegna reglna sveitarfélaga geti það verið flókið.

 

Henni finnst mikilvægt að fatlað fólk tjái sig um eigin aðstæður og hafi til þess vettvang. „Einhvern veginn finnst mér því alltaf snúið þannig að þeir sem tjá sig eða ræða um réttindi sín séu sérstaklega erfiðir, ótrúverðugir eða annað slíkt. Það er grafið undan þeim og það er ólíðandi. Þess vegna er þetta markmið Átaks, félags fólks með þroskahömlun, afar mikilvægt.“

 

Hanna segir spurð um reglur á Sólheimum og hvað íbúar máttu og máttu ekki gera að þeim hafi verið gert erfitt fyrir að fara í Bónus. Þá hafi hún greitt fyrir mötuneyti þrátt fyrir að nota það ekki.

 

„Þeir sem voru með bíl og bílpróf og gátu farið í Bónus máttu ekki taka okkur með, Sólheimar bönnuðu það.

 

Við gátum ekki farið í Bónus að versla og þurftum að kaupa í búðinni þar sem allt var miklu dýrara og svo lítið úrval. Síðan þurfi ég líka að borga í mötuneytið. Ég notaði ekki mötuneytið í fjögur ár og borgaði fyrir mat sem ég borðaði ekki.“

 

Frjáls

Hvað tók við eftir Sólheima? Hvernig er lífið núna? „Núna er ég frjáls og sjálfstæð. Ég þarf ekki að biðja um leyfi eða hafa starfsmann með mér þegar ég fer eitthvað. Það er flókið að komast af Sólheimum þegar þú ert fluttur þangað af ýmsum ástæðum. Ég myndi ekki vilja búa þarna aftur,“ segir Hanna frá. „Ég er búin að sanna fyrir fólki að ég geti gert hlutina sjálf.“

 

Nær sterkri tengingu við börn og dýr

Í nærsveit við bæinn þar sem Hanna býr starfar konan sem aðstoðaði hana við að komast frá Sólheimum, til starfa og til sjálfstæðrar búsetu. Konan er bóndi og þekkir Hönnu frá því hún bjó í bænum fyrir mörgum árum síðan. „Hún hefur reynst mér og börnunum mínum vel og var hjá mikið hjá okkur árum saman. Hún kom á bæinn til að aðstoða mig eftir að maðurinn minn lenti í slysi og var mikið hjá mér. Hún hefur mjög gott verkvit, er virkilega dugleg. Börn og dýr eru hænd að henni. Hún nær sterkri tengingu. Dýrin elta hana um og börn finna sig örugg í kringum hana,“ segir hún og bendir á að gáfur og gjörvileiki sé af ýmsu tagi.

 

„Hún gat keypt sér íbúð því hún átti töluverðan sparnað. Hún fékk vinnu í kaupfélaginu þar sem hún var virkilega ánægð. Fólkið hér kannast við hana og því nýtur hún skilnings. Þá fékk hún vinnu á leikskóla. Börnum líður vel í kringum hana, það er líka gott fyrir hana að vera í kringum börn.“

 

„Mér finnst við hafa verið afar heppin að hafa kynnst henni,“ segir hún þegar blaðamaður kemur með þá athugasemd að Hanna sé heppin að eiga hana sem hauk í horni.

 

Viðtalið er lesið upp, tengill við það er hér að neðan. Það er gert fyrir þá sem eiga erfitt með lestur.

Upplestur viðtals