Formaður tekinn til starfa hjá Átaki, félags fólks með þroskahömlun

Aileen Soffía Svensdóttir, formaður Átaks.
Aileen Soffía Svensdóttir, formaður Átaks.

Aileen Soffía Svensdóttir hóf störf hjá Átaki, félagi fólks með þroskahömlun í dag. Um nýtt starf er að ræða hjá Átaki þar sem ekki hefur áður verið starfandi formaður hjá félaginu í hálfu starfi.

 

Verkefnið er sprottið úr verkefni sem velferðarráðuneytið og Reykjavíkurborg styrkti um aukna þátttöku fatlaðs fólks á atvinnumarkaði.

 

Undirbúningur að þessu hefur staðið s.l. ár og var leiðarþingi Átaks árið 2015 ákveðin upphafspunktur sem varð til þess að stjórnin fór að velta fyrir sér Átakssetri og störfum þar sem fatlað fólk væri í forsvari. Með styrk frá velferðarráðuneytinu núna í vor var hægt að gera þetta að veruleika.

 

Stjórnin ákvað því á fundi sínum í sumar að efla starf félagsins og leggja áherslu á að það sé fatlað fólk sem er í forsvari fyrir félagið. Er Aileen ráðin sem formaður í 50% starf  til 30. apríl 2017, en þá líkur formanstíma hennar og nýr formaður tekur við.

 

Aileen hefur verið formaður félagsins s.l. 8 ár og hóf að starfa fyrir félagið árið 2001. Aileen hefur setið sem fulltrúi félagsins í stjórn Listar án landamærra, stjórn Landssamtakana Þorskahjálpar og tekið þátt í fjölda nefnda og verkefna á vegum félaganna sem snúa að réttindabaráttu fyrir fólk með þroskahömlun.

 

Aileen lauk námi frá Lýðháskóla 1997 og sem félagsliði frá Borgarholtskóla árið 2004. Einnig hefur Ailleen stundað söngnám og talar og ritar sænsku og ensku. Aileen hefur starfað við afgreiðslustörf hjá Hagkaup s.l 14 ár og skiptir nú um starfsvettvang og verður starfandi formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun.

 

„Ég er afar spennt fyrir því að fá að takast á við þetta krefjandi og áhugaverða starf sem stjórn Átaks fól mér og hlakka til að vinna með félagsmönnum að því að styrkja stöðu okkar sem okkar eigin talsmenn. Vonandi fjölgar fötluðu fólki í svona ábyrgðarstöðum í framtíðinni. Ekkert um okkur án okkar og við erum stolt að því að fá að standa upp fyrir okkur og vera sterk og sýnileg í samfélaginu.“ segir Aileen sem hóf störf í dag 1. september á skrifstofu félagsins að Háaleitisbraut 13.

 

Átak, félag fólks með þroskahömlun var stofnað árið 1993 og sinnir hagsmunagæslu og verkefnum sem fólk með þroskahömlun stýrir. Einkenni félagsins er "ekkert um okkur án okkar" og hefur félagið staðið vörð um hagsmunni félagsmanna sinna og réttindi fólks með þroskahömlun. Félagið vill að allir eigi þess kost að búa í sjálfstæðri búsetu, að vinna á almennum vinnumarkaði, eiga jafnan rétt til fjölskyldulífs og barneigna og njóta þess sem allir eiga möguleika á að njóta með eða án stuðnings.