Við göngum á ólíkan hátt – en öll í sömu átt !

Snæbjörn Áki Friðriksson
Snæbjörn Áki Friðriksson

Maður að vera stoltur af því að tilheyra okkar góða samfélagi. 

Þó stundum sé það áskorun að þurfa takast á við fordóma samtímans og kerfi sem horfir frekar í peninginn en almenn á mannréttindi fólks. 

Ég er stjórnarmaður í Átaki, félag fólks með þroskahömlun og ég er stoltur af því að vera ég. 

Það að fá að taka þátt í því starfi sem fram fer í Átaki hefur gert mig meira jafnfætis öðrum einstaklingum í samfélaginu.

Þar hef ég vettvang til að hafa áhrif á samfélagið þannig að ég sem fatlaður einstaklingur sé ekki beittur minni rétti en ófötluðu samborgarar mínir, sem samt er staðreynd í okkar samfélagi. 

Við í stjórn Átaks ákváðum í vor að fjölmenna í göngu þann 3. Sempember sem við ákváðum að kalla Stoltgöngu. 

Af hverju stoltganga?  

Við sem erum með þroskahömlun viljum sýna öllum að við erum Stór hópur, trúum á okkur sjálf og með viðeigandi aðstoð getum við tekið fullan þátt í samfélaginu. 

Við eigum rétt á því að fá þá aðstoð og munum stolt óska eftir henni. Þroskahömlun okkar er aðeins hluti af lífi okkar og á ekki að koma í veg fyrir að við getum lifað góðu og sjálfstæðu lífi.

Margt hefur breyst í lífi okkur sem gerir okkur glöð. Við viljum sjálf taka meiri þátt í þeim breytingum sem fram undan eru. 

Það gerum við með því að vera sýnileg og taka þátt í samfélaginu með öðrum.

Ekkert um okkur án okkar!

Því vil  ég hvetja alt folk með þroskahömlun, aðra fatlaða sem og ófatlaða að taka þátt í  gleðinni með okkur og jafnframt vekja athygli á því að við ætlum stolt að biðja um meiri mannréttindi í framtíðinni. 

Safnast verður saman á  Austurvelli  klukkan 11.30 og endað fyrir utan Norrænahúsið á Fundi fólksins.  Þar munum við vera með  tjald  þar sem allir eru velkomnir til að kynnast okkar sýn á samfélagið. 

Við munum því ganga á ólíkan hátt þann 3. september en ÖLL í sömu átt!

Snæbjörn Áki Friðriksson, varaformaður Átaks og formaður undir búningsnemdar stoltgöngunar